Fólk sem vill láta gott af sér leiða eftir sinn dag arfleiðir Krabbameinsfélagið reglulega að eigum sínum eða hluta þeirra. Lára Vigfúsdóttir, innanhússarkitekt frá Vestmannaeyjum er ein þeirra. Hennar erfðagjöf gerði Krabbameinsfélaginu mögulegt að bjóða fyrstu árgöngum sem boðið var í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum á árinu 2020 ókeypis skimun.
Gjaldfrjáls skimun er stór liður í að tryggja jafnt aðgengi að skimunum. Í erfðagjöf felst eindreginn vilji til að láta gott af sér leiða og mikilvægt er að tryggja að gjafirnar nýtist á bestan hátt. Erfðagjöf Láru rann beint til kvenna sem mættu í sína fyrstu skimun árið 2020 og skipti sköpum fyrir 25% þeirra sem sögðust ekki hefðu komið í leghálsskimun nema af því að skimunin var gjaldfrjáls og 10% kvenna sem mættu í fyrsta sinn í skimun fyrir brjóstakrabbameinum. Lára lést árið 2019, á nítugasta aldursári. Hún lagði ýmsum góðgerðarmálum lið meðan hún lifði og með erfðagjöfinni hélt hún því áfram eftir sinn dag.
Lára Vigfúsdóttir er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021-2022. Við ætlum að birta 70 myndir eða myndskeið af fólki sem hefur komið við sögu í baráttunni gegn krabbameinum í 70 ára sögu félagsins. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir sjálfsaflafé með stuðningi frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á instagram og facebook, myllumerkið er #70andlit