Systkini sem ólust upp í SOS barnaþorpinu í Santa Maria í Brasilíu fara fögrum orðum um SOS-styrktarforeldri sitt, Jón Pétursson, í minningargrein sem birt var dögunum á heimasíðu SOS í Brasilíu. Jón sem lést í janúar 2019 varð styrktarforeldri þeirra árið 1991 þegar þau voru tveggja og fimm ára.
Var okkur raunverulega sem faðir
Þetta var upphafið á fallegu sambandi milli Jóns og systkinanna sem nefndu hann Pétur frænda, (Uncle Peter) og heimsótti hann þau margoft til Brasilíu. „Ég minnist þess þegar mér var sagt að hann hafi valið að styrkja okkur eftir að hafa séð myndir af okkur. Honum þótti strax vænt um okkur og tók okkur að sér sem guðfaðir,“ segir systirin Graciane sem er 31 árs í dag og á tvö börn með sambýlismanni sínum, fjögurra og níu ára.
Bróðir Graciane er Leomar sem í dag er 34 ára og hefur einnig komið sér upp fjölskyldu. Leomar á fjögurra ára son með sambýliskonu sinni og hugsar alltaf hlýlega til Jóns. „Frá því hann hitti okkur í fyrsta skipti sýndi hann okkur umhyggju og athygli. Hann var okkur raunverulega sem faðir.“