Erfðaskrár

Ef þú vilt gefa erfðagjöf er mikilvægt að gera erfðaskrá til að tryggja að arfur berist þangað sem þú óskar.

Best er að hafa samband við góðgerðafélagið eða samtökin sem þú vilt styrkja og fá leiðbeiningar hjá þeim. Sum félögin geta aðstoðað þig við að komast í samband við lögfræðing. Ef þú vilt ekki hafa samband við félagið getur þú gert erfðaskrá á eigin vegum þar sem vilji þinn varðandi erfðagjöf kemur fram. Við mælum með að leitað sé til lögfræðings við gerð erfðaskrár til að tryggt sé að hún standist lög.

Mikilvægt er að erfðaskrá sé rituð skýrt svo ekki fari milli mála hver vilji þinn er. Samkvæmt 40. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skal erfðaskrá vera skrifleg og skal arfleifandi, það er sá sem gerir erfðaskrá, undirrita hana eða kannast við undirritun sína fyrir notario publico (lögbókanda / sýslumanni) eða tveimur vottum.

Einstaklingi ber ekki skylda til að gera erfðaskrá en hún er nauðsynleg til að tryggja að arfur berist þangað sem óskað er, til dæmis þegar arfleifandi vill gefa erfðagjöf.

Allir lögráða einstaklingar geta gert erfðaskrá.

Að gera erfðaskrá gefur arfleiðanda tækifæri til að ráðstafa hluta af eigum sínum, eða öllum eigum, eftir eigin vilja og hafa þannig áhrif á það hvernig eignum hans verður skipt eftir hans dag.

Erfðaskrá er ekki endanleg fyrr en arfleiðandi fellur frá. Arfleiðandi getur einnig gert breytingar á erfðaskrá eða útbúið nýja. Dagsetningar erfðaskráa skera úr um hver þeirra gildir, en það er ætíð sú nýjasta sem farið er eftir. Öruggast er að afturkalla eldri erfðaskrár til að forðast misskilning.

Erfðaskrá þarf að uppfylla ströng skilyrði og best er að leita til lögfræðings til að ganga úr skugga um að rétt sé að henni staðið.

Hér eru nokkur dæmi um það sem erfðaskrá þarf að uppfylla:

  • Erfðaskrá þarf að vera skrifleg og dagsett.
  • Skýrt þarf að taka fram að um sé að ræða erfðaskrá.
  • Viðkomandi þarf að skrifa undir erfðaskrá sína.
  • Fara þarf eftir reglum um skylduarf.
  • Koma þarf fram hver á að erfa og hvað viðkomandi á að erfa.
  • Tveir vitundarvottar, eða sýslumaður (og þá er fengin notario publico vottun) þurfa að vera vitni að því að viðkomandi sé með réttu ráði og rænu og undirriti erfðaskrána af frjálsum vilja. Vottarnir verða að vera eldri en 18 ára og lögráða, mega ekki njóta góðs af erfðaskránni og skulu undirrita erfðaskránna á sama tíma og viðkomandi.

Einnig þarf erfðaskráin að vera orðuð á skýran hátt þannig að enginn vafi leiki á vilja viðkomandi.