Arfur og erfingjar

Eigir þú skylduerfingja, maka eða börn, getur þú ráðstafað þriðjungi eigna þinna með erfðaskrá. Ef að þú átt ekki skylduerfingja þá getur þú ráðstafað öllum eignum að eigin vild.

Ef arfi hefur ekki verið ráðstafað með erfðaskrá og viðkomandi á ekki lögerfingja (þeir eru tilteknir á myndinni hér að neðan) þá rennur arfurinn í ríkissjóð. Með erfðaskrá getur viðkomandi hins vegar ráðstafað eignum sínum að eigin vild.

Samkvæmt íslenskum lögum er einungis heimilt að ráðstafa þriðjungi af arfi með erfðaskrá ef maki, börn, barnabörn eða aðrir afkomendur eru til staðar. Þeir sem ekki eiga maka eða afkomendur geta ráðstafað öllum arfi með erfðaskrá.

Sé erfðaskrá ekki til staðar erfa lögerfingjar í þessari röð:

1. Fyrsta erfð: Maki og afkomendur
Séu maki og afkomendur (börn, barnabörn o.s.frv.) til staðar erfa þeir hinn látna. Arfurinn skiptist þannig að afkomendur erfa 2/3 arfsins en maki 1/3.
Sé maki ekki til staðar taka afkomendur allan arfinn. Séu börn ekki til staðar, erfa barnabörn, og svo aðrir afkomendur koll af kolli. Ef arfleifandi á enga afkomendur á lífi tekur makinn allan arf.
Maki og afkomendur eru skylduerfingjar sem þýðir að þá er ekki hægt að svipta lögbundnum erfðarétti. Séu maki eða afkomendur til staðar er því einungis hægt að ráðstafa þriðjungi arfs með erfðaskrá.

2. Önnur erfð: Foreldrar og afkomendur þeirra
Eigi arfleifandi hvorki maka né afkomendur rennur arfur til foreldra. Ef annað foreldrið er ekki á lífi fer hlutur þess til barna (systkina þess látna) eða annarra niðja, en ef það á enga afkomendur fer arfurinn allur til hins foreldrisins. Ef hvorugt foreldri hins látna er á lífi taka afkomendur hvors foreldris þann arf sem því hefði borið. Ef annað foreldrið á enga afkomendur, fer allur arfurinn til afkomenda hins.
Foreldrar og afkomendur þeirra eru ekki skylduerfingjar og erfa hinn látna eingöngu ef hann á ekki maka eða afkomendur á lífi og hefur ekki ráðstafað arfinum á annan veg í erfðaskrá.

3. Þriðja erfð: Amma og afi og afkomendur þeirra
Sé enginn í fyrstu eða annarri erfð taka föðurforeldrar og móðurforeldrar sinn helming arfs hvor. Ef föður- eða móðurforeldrar eru látnir taka afkomendur þeirra arf, það er að segja systkini foreldra hins látna eða börn þeirra og barnabörn. Eigi þeir enga afkomendur rennur arfurinn allur til þeirrar ömmu og afa hins látna sem enn eru á lífi eða afkomenda þeirra.
Afi og amma þess látna og afkomendur þeirra eru ekki skylduerfingjar og erfa hinn látna eingöngu ef hann hefur ekki ráðstafað arfinum á annan veg í erfðaskrá.
Ef enginn er til að taka arf samkvæmt lögerfum og engin erfðaskrá hefur verið gerð rennur arfurinn í ríkissjóð.

Orðskýringar:

  • Arfleifandi: Sá sem skilur eftir sig arf.
  • Skylduerfingjar: Þau sem eiga lögvarinn rétt til arfs. Maki og afkomendur eru skylduerfingjar. Ef maki eða afkomendur eru til staðar má eingöngu ráðstafa þriðjungi eigna á annan veg með erfðaskrá.
  • Lögerfingjar: Þeir sem erfa hinn látna samkvæmt erfðalögum. Að undanskildum maka og afkomendum, sem eru skylduerfingjar, eiga lögerfingjar ekki lögvarinn rétt til arfs og erfa hinn látna eingöngu ef hann á ekki skylduerfingja og hefur ekki ráðstafað arfi á annan hátt í erfðaskrá.