Hvað eru erfðagjafir?

Erfðagjafir felast í því að ánafna hluta af eignum þínum til samtaka sem eru þér kær. Erfðagjöf er því ekki gjöf sem þú gefur í dag heldur mun hún berast eftir þinn dag.

Allir lögráða einstaklingar mega gera erfðaskrá og geta þar með sett erfðagjöf í erfðaskránna.

Félagið eða félögin sem þú gefur erfðagjöf njóta góðs af henni og geta nýtt hana í áframhaldandi uppbyggingu á sínu starfi og/eða framþróun sem annars hefði ekki orðið.

Allir geta móttekið erfðagjafir, einstaklingar, stofnanir, félög eða aðrar lögpersónur.

Engin lágmarks- eða hámarksupphæð er fyrir erfðagjöf. Allar erfðagjafir nýtast góðgerðafélögum í starfi sínu.

Hægt er að gefa allar eignir svo sem fjármuni, húseign, hlutabréf, innbú o.s.frv.

Eigir þú skylduerfingja, maka eða börn, getur þú ráðstafað þriðjungi eigna þinna með erfðaskrá. Ef að þú átt ekki skylduerfingja þá getur þú ráðstafað öllum eignum að eigin vild.

Það er undir þér komið hversu mikið rennur til félagsins. Algengast er aðeinstaklingar gefi hluta eigna sinna í erfðagjafir til góðgerðarfélaga.

Ef þú vilt gefa erfðagjöf er mikilvægt að gera erfðaskrá til að tryggja af arfur berist þangað sem þú óskar. Hægt er að ánafna prósentu af arfi, ákveðinni upphæð eða tiltekinni eign. Mælt er með að ráðfæra sig við lögfræðing þegar gengið er frá erfðaskrá til að tryggja að hún sé gild samkvæmt lögum. Þú getur leitað til eigin lögfræðings eða haft samband við góðgerðafélagið sem þú vilt styrkja og fengið aðstoð hjá þeim.

Viljir þú halda áfram að styðja við góðgerðarfélag eftir þinn dag sem vinnur að málefni sem er þér kært þá getur þú gert það með erfðagjöf. Það getur skipt sköpum fyrir það félag.

Mælt er með aðstoð lögfræðings við gerð erfðaskrár. Flestar lögfræðistofur bjóða upp á slíka aðstoð. Ef þig vantar aðstoð mælum við með að hafa samband við það félag sem þú vilt styrkja og fá frekari leiðbeiningar.

Það er undir þér komið hvernig þú vilt ráðstafa eignum þínum og hversu margir njóta þeirra.

Best er að hafa samband beint við það góðgerðafélag sem þú vilt styrkja til að fá nánari upplýsingar um það.

Flest félög kjósa að erfðagjafir til þeirra séu ekki skilgreindar til sérstaks verkefnis þar sem oft líður langt frá því að erfðaskrá er rituð þar til hún berst. Því gæti orðið erfitt að uppfylla sértækar óskir í framtíðinni og gætu þá önnur verkefni hafa fengið meiri þýðingu. Skilyrði fyrir ráðstöfun arfs geta verið mjög ströng og orðið til þess að félag sem fengið hefur erfðagjöf getur ekki tekið á móti henni þar sem samþykki arfleiðanda fyrir annars konar ráðstöfun er ekki til staðar.  Erfðagjöf sem ekki er skilyrt til ákveðins verkefnis er yfirleitt nýtt þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Erfðagjafir eru ekki nafnlausar því sá sem fær erfðagjöf þarf að vera hluti af skiptunum og er þar með upplýstur um hver gefur erfðagjöfina. Hins vegar er hægt að óska eftir því við góðgerðafélagið að ekki sé sagt frá erfðagjöfinni opinberlega.

Í löndunum í kringum okkur tíðkast að einstaklingar gefi erfðagjafir til góðgerðarfélaga. Árið 2017 gáfu sem dæmi 24% þeirra sem gerðu erfðaskrá í Bretlandi erfðagjöf.

Æskilegt er að huga að erfðagjöf um leið og erfðaskrá er gerð svo vilji þinn sé skýr eftir þinn dag.

Erfðagjafir til góðgerðafélaga eru undanskildar erfðafjárskatti. Erfðafjárskattur er því ekki greiddur af þeim hluta arfs sem gefinn er sem erfðagjöf til góðgerðarmála.